„Við höfum ítrekað reynt að freista þess að finna skynsamlega lendingu með einhverju raunverulegu innihaldi sem skilar raunverulegum árangri á kaupmáttaraukningu en ekki tjóni og verðbólgu. Þar stendur hnífurinn í kúnni,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við Morgunblaðið .

Kjaraviðræður SA við VR og Flóabandalagið sigldu í strand í gær og segir Þorsteinn ljóst að menn nái ekki saman. Mjög langt sé í land og enginn flötur sé milli manna í þessari stöðu. Ríkissáttasemjari hefur ekki tekið ákvörðun um hvenær næsti fundur verði haldinn.

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir í samtali við Morgunblaðið að hugmyndir SA um breytingar á vinnutímafyrirkomulagi vera ástæðuna fyrir slitunum, en SA hefur boðist til þess að hækka lægstu laun og svo dagvinnulaun um 24% á þriggja ára tímabili.