Kjaraviðræður eru komnar á fullt skrið og hefur ríkissáttasemjari kallað til sín samninganefndir Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins á fund næstkomandi mánudag. Sáttasemjari hitti fyrr í dag formenn stærstu landssambanda Alþýðusambands Íslands. Starfsgreinasambandið og Flóabandalagið eru einu aðilarnir, enn sem komið er, sem vísað hafa kjaradeilu sinni við SA til sáttasemjara.

ASÍ hefur lýst yfir miklum vonbrigðum með að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa tekið undir skattatillögur sambandsins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forsætisráðherra, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að tillögurnar hefðu í för með sér mikil jaðaráhrif, sérstaklega fyrir lágtekju- og millitekjufólk. Samtök atvinnulífsins hafa tekið í sama streng.

Á vef Alþýðusambandsins segir að fulltrúar þess hafi gert sér fulla grein fyrir þeim “óhentugu jaðaráhrifum sem þessi tillaga hefði í för með sér,” eins og það er orðað. ASÍ hefði gert ríkisstjórninni grein fyrir þeim ókosti þegar á fyrsta fundi í desember. ASÍ hefði hins vegar lagt til ýmsar hliðarráðstafanir til að draga úr jaðaráhrifunum. “Í fyrsta lagi gerðum við ráð fyrir því að lækka tekjutengingu barnabóta, í öðru lagi að þak yrði sett á jaðaráhrifin þannig að samanlagður tekjuskattur, útsvar, tekjutenging vaxtabóta og barnabóta og skerðing þessa persónuafsláttar yrði ekki hærri en t.d. 50% og í þriðja lagi að þessi sérstaki persónuafsláttur yrði ekki framkvæmdur í staðgreiðslu heldur greiddur út með sama hætti og barna- og vaxtabætur.”