Samtök handritshöfunda sögðu í bréfi til meðlima sinna í dag að náðst hefði bráðabirgðasamkomulag til þriggja ára við stóru myndverin í Hollywood sem og helstu sjónvarpsstöðvar. Áætlað er að kynna samkomulagið í New York og Los Angeles í dag.

Verði samningurinn samþykktur af meðlimum samtakanna munu þúsundir handritshöfunda snúa aftur til vinnu á mánudag, sem myndi binda enda á þann glundroða sem ríkt hefur í skemmtanaiðnaðunum þá þrjá mánuði sem verkfallið hefur staðið yfir.

„Við teljum að áframhaldandi verkfall muni ekki skila árangri með tilliti til þeirrar áhættu sem tekin er með slíkum aðgerðum. Nú er tími til kominn að ganga að samningaborðinu og ljúka verkfallinu," sögðu samtökin í bréfi til meðlima sinna.

Verkfallið hófst þann 5. nóvember síðastliðinn, en helsta bitbeinið í þessum löngu og ströngu samningaviðræðum hefur verið um hvort fyrirtæki megi endurnýta efni samið af handritshöfundum á internetinu.