Kjötvinnslufyrirtækið Kjarnafæði hefur boðið 750 milljónir króna í keppinautinn Norðlenska, auk þess að taka yfir skuldir fyrirtækisins. Greint er frá þessu í Markaðnum á Fréttablaðinu .

Óskar Gunnarsson, formaður stjórnar Búsældar ehf. sem er núverandi eigandi Norðlenska, segir í samtali við Markaðinn að tilboðið sé í skoðun innan félagsins og afstaða verði tekin fyrir 21. maí.

„Viðræður eru á byrjunarstigi. Við erum að skoða þetta kauptilboð innan stjórnarinnar og ég geri fastlega ráð fyrir því að við munum boða til hluthafafundar þar sem afstaða verður tekin til kauptilboðsins,“ segir hann.

Norðlenska er samvinnufélag í eigu þeirra bænda sem leggja inn gripi til slátrunar. Greint er frá því í Markaðnum að bregði þeir búi sé hlutur þeirra keyptur á genginu 1, en tilboð Kjarnafæðis í allt hlutafé fyrirtækisins sé á genginu 2. Búsæld keypti allt hlutafé Norðlenska fyrir 568 milljónir króna árið 2007.