*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 4. maí 2019 12:00

Kjarni húsnæðivandans

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkur, segir uppbyggingastefnu meirihlutans hafa mistekist.

Kristján Torfi Einarsson
Eyþór Arnalds fer yfir borgarmálin í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.
Haraldur Guðjónsson

Á síðustu árum hefur húsnæðisverð tvöfaldast og samhliða hefur leiguverðið einnig rokið upp. Við erum að sjá fleiri og stærri hópa sem ekki geta eignast húsnæði. Bæði er orðið mjög erfitt fyrir ungt fólk og tekjulága að festa kaup á húsnæði en það sem verra er þeim fjölgar hratt sem eru upp á aðra komna eða eru einfaldlega á götunni,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.  

„Núna í morgun sátum við á fundi niður í Ráðhúsi þar sem farið var yfir aðgerðir Reykjavíkurborgar til að bregðast við þessum vanda, en á fáeinum árum hefur fjöldi húsnæðislausra tvöfaldast. Þessi vinna fór af stað í kjölfar málflutnings og ábendinga okkar og í sjálfu sér eru tillögurnar um margt ágætar. Úrræði í húsnæðismálum eru hins vegar stundum eins og plástur sem af handahófi er gripið til eftir að skaðinn er skeður. Það er miklu betra að ráðast að rótum vandans og koma í veg fyrir sárið. Það hefur ekki enn verið gert. 

Það er ekki eins og vandinn hafi sprottið upp úr þurru á einni nóttu heldur er hann afleiðing af stefnu Reykjavíkurborgar og hefur undið upp á sig í langan tíma. Í Reykjavík er staðan á húsnæðismarkaði þannig að töluvert framboð er á dýru húsnæði í dýrum hverfum og margt bendir til að eftirspurn á þessum hluta markaðarins hafi nú þegar verið mætt. Engu að síður má ráða af uppbyggingunni sem er enn á framkvæmdastigi að framboð á dýru húsnæði muni aukast enn frekar á næstu misserum. Það er sem sagt búið að búa til fullt af sósu og frönskum en það vantar hamborgarann. 

Þetta er staðreyndin og hún er afleiðing húsnæðisstefnu sem vinstrimenn í borginni hafa fylgt í fjölda ára. Það er nægt framboð og þrýstingur til verðlækkunar á húsnæði fyrir efnafólk en mikill skortur og þrýstingur til verðhækkana á húsnæði fyrir ungt fólk og tekjulága – samhliða fjölgar heimilislausum. Ég vona að kjósendur staldri við þessa staðreynd og skoði stöðuna fordómalaust. Góður ásetningur er ágætur og sjálfsagt að gefa prik fyrir viðleitni. En þegar upp er staðið eiga verkin að tala og staðreyndir að ráða úrslitum,“ segir Eyþór Arnalds. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér