*

mánudagur, 6. júlí 2020
Fjölmiðlapistlar 21. júlí 2019 13:43

Kjarninn málsins

Það er réttmæta gagnrýnin sem bítur, hitt er bara suð, en hefðin er að blaðamenn kæra ekki hvern annan.

Andrés Magnússon
Þórður Snær Júlíusson og Magnús Halldórsson voru áður en þeir sneru bökum saman og stofnuðu Kjarnann blaðamenn á Viðskiptablaðinu.
Haraldur Guðjónsson

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur nú í tvígang vísað frá (nánast samhljóða) kæru tveggja stofnenda vefmiðilsins Kjarnans, þeirra Þórðar Snæs Júlíussonar og Magnúsar Halldórssonar, vegna greinar Sigurðar Más Jónssonar í tímaritinu Þjóðmál, sem er ritstýrt af Gísla Frey Valdórssyni. Og gaman að segja frá því að allir eru þeir fyrrverandi samstarfsmenn hér á Viðskiptablaðinu!

Í grein sinni tók Sigurður Már Kjarnann til umfjöllunar, pólitískt erindi hans og rekstrargrundvöll. Kjarnamönnum sárnaði hún greinilega mjög, sökuðu Sigurð Má um rangfærslur og hafa valdið sér og blaðamannastéttinni vanvirðu. Frávísun siðanefndar var einföld, að þar ræddi um skoðanagrein, sem félli utan umfjöllunarsviðs nefndarinnar.

                                                                                  * * *

Nú er engum blöðum um það að fletta að grein Sigurðar Más var afar gagnrýnin á Kjarnann og þar var bent á eitt og annað því til rökstuðnings, sem lesendur gátu svo tekið afstöðu til.

Þórður Snær skrifaði raunar langa mótmælagrein í Kjarnann til andsvara og vandaði Sigurði Má ekki kveðjurnar, en eftir því sem fjölmiðlarýnir kemst næst voru kærurnar mjög samstofna henni.

Þar var margt til tekið, en hæst bar sennilega ágreining um lestur Kjarnans, sem Sigurður Már taldi mjög takmarkaðan en Kjarnamenn segja í góðum gír; fullyrðingar um pólitíska afstöðu ritstjórnar Kjarnans, sem Sigurður Már taldi til vinstri við miðju (með ábendingum um stjórnmálaskoðanir eigenda), en Kjarnamenn segja fráleitt þar sem þeir hafi aldrei gegn trúnaðarstöðum hjá stjórnmálaflokkunum; og loks að gagnrýnin hafi verið svo beinskeytt að ritstjórnin hefði beðið tilfinningalegt tjón af.

                                                                                  * * *

Margt af þessu er auðvitað svo matskennt að ekki tjóir að leggja neina mælistiku á, en það er samt rétt að víkja að því helsta.

Nú er raunar afar erfitt að fullyrða mikið um lestur Kjarnans, því hann hefur – nánast einn íslenskra vefmiðla – dregið sig út úr samræmdum mælingum, fyrst hjá Modernus og síðar hjá Gallup. En það sem menn geta séð um lesturinn í fortíðinni bendir til þess að lesendahópurinn hafi frá upphafi verið fremur lítill og stöðugur. Hvergi nálægt almennum fréttamiðlum, eins og Kjarninn vill vera, en sambærilegur við afmarkaðan miðil eins og vb.is. Staðan kann vissulega að vera önnur nú, þó að auglýsingamenn telji ekki að neinar verulegar breytingar hafi orðið á lestrinum síðan. Kjarninn birtir hins vegar ekki eigin lestrarmælingar, svo það er vandséð á hverju öðru en fyrri mælingum Sigurður Már hefði átt að byggja.

Umkvartanir undan fullyrðingum Sigurðar Más um tiltölulega þröngt pólitískt litróf ritstjórnar Kjarnans eru svo bara eins og þær eru. Til þess getur hver og einn tekið afstöðu með því að lesa miðilinn og reyna að greina leiðarhnoð hjá honum, en það að menn hafi ekki gegnt einhverjum trúnaðarstöðum hjá stjórnmálaflokkunum eða aðildarfélögum þeirra er engin frábending um það. Hafi menn gert það kann að felast vísbending í því, en þó er ekkert fast í hendi þar að lútandi, fólk eldist og skiptir um skoðanir eins og gengur. Matið á því hlýtur að byggja á því sem fólk skrifar í miðilinn, ekki ferilskránni.

Hins vegar verður að segjast eins og er, að umkvörtun og kærumál Kjarnans um að grein Sigurðar Más hafi valdið gervallri ritstjórninni „óþarfa sársauka og vanvirðu“ eru ekki mjög trúverðug. Eiginlega hláleg. Blaðamenn eru þjálfaðir í gagnrýninni, hlutlægri hugsun og hafa flestir komið sér upp sæmilega þykkum skráp gagnvart gagnrýni. Og ef svo er ekki, þá eru þeir sjálfsagt á rangri hillu í lífinu.

Fyrir utan hið augljósa, að það er réttmæta gagnrýnin sem bítur, hitt er bara suð.

                                                                                  * * *

Svo er auðvitað annað í þessu, sem er að hefðin hefur um áratugaskeið verið sú að blaðamenn kæra ekki hver annan. Hvorki til siðanefndar né með stefnum fyrir dómstóla. Vegna þess að þeir hafa trú á mætti orðsins og málfrelsinu. Kærur og stefnur eru tæki þeirra, sem ekki telja sig geta rétt hlut sinn með öðrum hætti gagnvart útbreiðslu og ofurefli fjölmiðla.

Þegar fjölmiðlar eða blaðamenn eiga í slíkum stælum og stympingum þá takast þeir á á eigin vettvangi, með eigin orðum og rökum, ekki löglærðum málsvörum og löggjöf til temprunar tjáningarfrelsinu.

Fjölmiðlarýnir áttar sig ekki vel á því til hvers þessi kærumál og ótrúlega löngu greinaskrif eru ætluð, því Kjarninn getur ekki áfellst Sigurð Má fyrir að segja ekki rétt frá lestri Kjarnans, sem þeir vilja sjálfir ekki segja frá eða láta aðra votta. Hvað þá að Sigurður Már (eða ritstjóri Þjóðmála) geti „leiðrétt“ skoðanir hans.

                                                                                  * * *

Höfum í huga að alveg burtséð frá þrætum um ætlaðan lesendafjölda eða skoðanir ritstjórnarinnar, þá er skoðanagrein Sigurðar Más fyllilega tæk. Þegar efnafólk leggur – mikið eða lítið lesnum –  fjölmiðli til fé, þá er sjálfsagt mál að spyrja um ástæður, erindi og árangur; jafnvel að draga eigin ályktanir um það og staðhæfa um líklegar skýringar. Svo geta lesendur melt og metið það, jafnvel stungið niður penna til athugasemda ef vill.

Það hefur Kjarninn sjálfur ástundað án minnsta hiks, til dæmis um Morgunblaðið og Vefpressuna sálugu. Þar var bæði horft til ritstjórnarstefnu, fjárhagsástæðna og eignarhalds. Og ekkert að því.

Kjarninn er ekki heldur ragur við að birta athugasemdalaust skoðanagreinar, þar sem ekki eru spöruð gífuryrði og dylgjur, líkt og lesa mátti í furðulegri Kjarnagrein Katrínar Baldursdóttur á mánudag, þar sem Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki var líkt við Mafíuna á Ítalíu, og ekki í neinu framhjáhlaupi, og m.a. sagðir hafa notað svipaðar aðferðir og Mafían, svona eftir að hún lét af mestu af því að myrða fólk með skipulegum hætti!

Ber Kjarninn beina ábyrgð á birtingu greinarinnar? Dómstólum kynni að finnast það, ef Mafían skyldi nú stefna honum fyrir meiðyrði, en auðvitað ber Katrín ábyrgðina, þó greinin sé einnig Kjarnanum til minnkunar.

                                                                                  * * *

Eitt af hlutverkum fjölmiðla er að gagnrýna og þeir verða einnig að þola gagnrýni – líkt og kollegarnir og lesendur þessara pistla hafa gert af umburðarlyndi og án siðanefndarkæra eða málshöfðana undanfarin 12 ár!). Finnist fjölmiðlum á sig hallað eiga þeir að sveifla því máttuga sverði, sem þeir valda best: pennanum.

Það er kjarni málsins.