Íslensku fyrirtækin Kjarninn og Locatify hafa verið tilnefnd til hinna alþjóðlegu World Summit Awards verðlauna Sameinuðu Þjóðanna. WSA er keppni Sameinuðu Þjóðanna um bestu stafrænu lausnirnar.

Alls eru 454 verkefni tilnefnd til verðlaunanna í átta flokkum. Í frétt Kjarnans kemur fram að fjölmiðlafyrirtækið sé tilnefnt í flokki stafrænna miðla og frétta en Locatify í flokki stafrænnar ferðaþjónustu og menningar.

Í september verður tilkynnt um 40 sigurvegara, fimm í hverjum flokki, sem munu fá tækifæri til að fara á hina alþjóðlegu WSA Global ráðstefnu sem haldin verður í Abu Dhabi í byrjun næsta árs. Þar verða verkefnin kynnt fyrir hópi alþjóðlegra sérfræðinga sem velja eitt verkefni úr hverjum flokki sem ber sigur úr býtum.