Kjarninn miðlar ehf., rekstrarfélag fjölmiðilsins Kjarnans, tapaði rétt tæpum 8,3 milljónum króna á síðasta ári. Er þetta öllu verri niðurstaða en ári fyrir þegar fyrirtækið skilaði 261 þúsund króna hagnaði. Þetta má sjá í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Rekstrartap félagsins fyrir skatta var um 10,3 milljónir króna. Aftur á móti færði félagið rúmlega tveggja milljóna króna tekjuskattsinneign til tekna.

Eignir Kjarnans námu 31,9 milljónum króna í árslok, en þar af nam handbært fé 26,7 milljónum króna. Skuldir voru 2,7 milljónir króna og nam eigið fé félagsins því 29,2 milljónum króna í lok ársins.

Fram kemur í ársreikningum að hlutafé fyrirtækisins hafi verið aukið um 36,7 milljónir króna á reikningsárinu.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Magnús Halldórsson blaðamaður eru stærstu hluthafar fyrirtækisins. Eiga þeir hvor um sig 14,98% hlut í miðlinum. Miðeind ehf. á 13,76% hlut og þá eiga Ægir Þór Eysteinsson, Hjalti Harðarson og Gísli Jóhann Eysteinsson 10,17% hver.