Kjarninn miðlar ehf. rekstrarfélag vefmiðilsins Kjarnans tapaði tæpum 15 milljónum króna í fyrra. Árið 2015 nam tap félagsins 16,7 milljónum króna og helst það því svipað á milli ára. Rekstrartekjur Kjarnans jukust á milli ára en þær námu 38 milljónum í fyrra og námu rekstrargjöld félagsins 56,8 milljónir árið 2016. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Eignir Kjarnans í árslok 2016 námu 18,5 milljónir króna. Eigið fé félagsins var í lok árs 2016 11,7 milljónir króna og lækkaði um tæpa milljón milli ára. Skammtímaskuldir félagsins námu 6,8 milljónum í lok árs 2016 og tvöfölduðust ríflega milli ára, en þær námu 3,2 milljónum í árslok 2015. Hluthafar lánuðu Kjarnanum 1,9 milljónir og hlutfafé félagsins var aukið um 18 milljónir á árinu. Handbært fé Kjarnans í árslok 2016 nam 2,5 milljónum króna.

Hg80 ehf. í eigu Hjálmars Gíslasonar á 16,55% hlut í Kjarnanum og er hann stærsti eigandinn. Þar á eftir á félagið Miðeind ehf. 15,98% hlut, en Miðeind er í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar. Magnús Halldórsson, einn stofnenda Kjarnans á 13,79% hlut og Þórður Snær Júlíusson einn stofnenda Kjarnans á 12,20%.