Forgangsröðunin breytist hratt á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu. Að sögn Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, kom þetta fram í máli formanns umhverfisnefndar Evrópuþingsins á fundi þess í vikunni en Gústaf sat fundinn. Formaðurinn sagði það erfiðara en áður að leggja áherslu á kostnaðarsamar aðgerðir á sviði loftslagsmála, svo dæmi sé tekið.

Að sögn Gústaf tók forseti framkvæmdastjórnar ESB undir þetta en varaði þó við þessari umræðu, þar sem loftslagsmálin geti orðið margfalt kostnaðarsamara viðfangsefni en núverandi fjármálakreppa. Hann sagði að enginn vilji sé þó fyrir því að setja einhliða svo stífar reglur að ESB flytji út losun gróðurhúsalofttegunda en flytji inn atvinnuleysi. Hann segir ljóst að kjarnorkan geti gegnt mikilvægu hlutverki í viðleitni ESB til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en talsmenn kjarnorkuiðnaðarins hafa lengi kvartað undan því að þeirra hlutur njóti ekki sannmælis í umræðum um orku- og loftslagsmál á vettvangi ESB.