Hlutabréfamarkaðir í Asíu brugðust illa við fimmtu tilraun N-Kóreumanna með kjarnorkuvopn. Ástandið í álfunni og samskipti milli ríkja gæti versnað í kjölfar sprengingarinnar. Talið er að hún sé sú stærsta sem N-Kórea hefur framkvæmt. Þetta kemur fram í yfirliti Reuters fréttastofunnar. Leiðtogar valdamestu ríkja heimsins hafa fordæmt kjarnorkusprenginguna.

Hlutabréf höfðu þegar lækkað áður en fréttirnar um kjarnorkuprófanir N-Kóreu bárust til eyrna fjárfesta. Það hafði þau áhrif að hlutabréfin lækkuðu enn frekar.

Til að mynda þá lækkaði MSCI's vísitalan fyrir asíska markaði fyrir utan Japan um 0,5%.

Hin japanska Nikkei vísitala hélst hins vegar í stað á milli daga.

S-Kóreumenn töpuðu einnig á aðgerðum nágranna sinna — en KOSPI vísitalan lækkaði um 1,3%.

Hin kínverska CSI 300 vísitalan lækkaði um 0,25% og Shanghai vísitalan lækkaði um 0,2%.

Eina vísitalan sem hækkaði á asískum mörkuðum var Hong Kong vísitalan, en hún hækkaði um 1,2%. Hún hækkaði í heildina um 4,2% í vikunni.