Fjármálamarkaður Suður-Kóreu hríðféll við fregnir af kjarnorkutilraununum í Norður-Kóreu og spá greiningaraðilar enn frekari lækkununm á næstunni, hlutabréfamarkaðir annars staðar í heiminum fundu einnig fyrir áhrifum tilraunanna, segir í frétt Dow Jones.

Korea Composite Stock Price vísitalan (KOSPI) lækkaði um 2,4% frá því á miðvikudag og endaði í 1319,4, en fjármálamörkuðum var lokað á fimmtudag og föstudag vegna þakkagjörðahátíðar Kóreu.

Við lok markaðar var var gengi bandaríkjadals gagnvart gjaldeyri Suður-Kóreu, Won (KRW) 963,9, sem er aukning frá 952,5 við opnun markaðar.

Fyrirtækið Hyundai Merchant Marine fór verst út og lækkaði um 14,9%, niður í 14.800 KRW, þar sem líklegt er að fyrirtækið verði fyrir beinum áhrifum frá tilraununum, en fyrirtækið stundar ferðamannaiðnað í norðurhluta Suður-Kóreu.

Matsfyrirtækið Standard & Poor's mun ekki breyta lánshæfismati á Suður-Kóreu, en segir að það verði að beita Norður-Kóreu viðskiptaþvingunum vegna kjarnorkutilraunanna. Greiningaraðili S&P, Takahira Ogawa, segir að Bandaríkin, Japanir, Suður-Kórea og mögulega Kína verði að beita Norður-Kóreu viðskiptaþvingunum, en að óljóst sé hvernig Norður-Kóreumenn muni bregðast við slíkum þvingunum.

Moody's segir að tilraunirnar muni ekki hafa áhrif á lánshæfismat Suður-Kóreu, svo lengi sem stöðugleiki haldist á milli þjóðanna.

Japanska jenið stóð í 119,07, en var 118,85 rétt áður en tilkynnt var um tilraunirnar. Markaðir eru lokaðir í Japan vegna frídags. Won hafði veikst gagnvart jeninu og er nú í 8,0862, en var 8,0404 á miðvikudag.

Hlutabréfamarkaðir í nágrenni við Norður-Kóreu lækkuðu einnig flestir. Hang Send vísitalan í Hong Kong lækkaði um 0,9% og var 17736,42 á mánudagsmorgun. S&P/ASX 200 vísitalan í Ástralíu lækkaði um 0,4% og var 5199, 1, en var áður 5231,2 en vísitalan hafði ekki verið hærri í fimm mánuði.

Shanghai Composite vísitalan í Kína hækkaði um 1,9% og var 1785,385, en bjartsýni vegna skráningar Bank of China á hlutabréfamarkað er talin ástæða þess, en flot bankans stefnir í það að verða það stærsta í heimi.

Markaðir í Taívan voru lokaðir á mánudag.

Hlutabréfamarkaðir féllu í Bandaríkjunum í dag í kjölfar tilraunanna, um hádegi hafði Dow Jones vísitalan lækkað um 16,48, S&P 500 lækkaði um 3,64 og Nasdaq vísitalan lækkaði um 6,35.