Aðspurður um stöðu Sjálfstæðisflokksins í ítarlegu viðtali í áramótatímariti Viðskiptablaðsins segir Kjartan Gunnarsson, fyrrv. framkvæmdastjóri flokksins, hana vera nokkuð sterka þó svo að sér fyndist betra að skoðanakannanir væru aðeins betri fyrir flokkinn.

„Það er gömul reynsla að flokkurinn er nokkuð stærri í könnunum en í kosningum. Auðvitað er það ekkert lögmál en það hefur verið regla í áratugi,“ segir Kjartan um þetta.

„Miðað við þá reynslu þá er 36% ekki mjög góð tala, þó að síðustu kannanir gefi til kynna að flokkurinn auki verulega við þingmannafjölda sinn vegna þess hversu mörg atkvæði falla niður dauð. Það getur gefið flokknum tækifæri á að mynda tveggja flokka stjórn. En það eru líka margir sem gefa ekki upp afstöðu sína eða ætla ekki að kjósa, samkvæmt könnunum. Reynslan hefur líka sýnt að Sjálfstæðisflokkurinn virðist alltaf eiga minna að sækja í þann hóp heldur en aðrir flokkar. En maður þarf að vera bjartsýnn og trúa því að þetta gangi allt upp. Það er auðvitað mikið hagsmunamál fyrir þjóðina að það verði mynduð ný ríkisstjórn með aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Það bendir nú margt til þess að svo verði, þrátt fyrir þessar miklu heitingar sem koma nú frá Samfylkingunni og Vinstri grænum sem virðast telja að allar stjórnir séu betri en stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf hins vegar að átta sig vel á því að margir menn leggja nánast allt undir til að halda honum áfram utan ríkisstjórnar.“

Nú hefur staðið nokkur styrr um formann flokksins, Bjarna Benediktsson, og það var svo sem ekkert leyndarmál að þú studdir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þegar hún bauð sig fram gegn honum fyrir rúmu ári. Hvað útskýrir þá ákvörðun þína?

„Því er nokkuð auðsvarað. Ef Hanna Birna hefði gefið kost á sér sem formaður í mars 2009 þá hefði ég stutt hana. Þess vegna studdi ég hana þegar hún bauð sig fram á síðasta landsfundi,“ segir Kjartan.

„Ég er þeirrar skoðunar að hún sé einhver allra besti kostur sem Sjálfstæðisflokkurinn á um forystumann. Yfirburða fylgi hennar í flokknum kom vel í ljós í nýafstöðnu prófkjöri í Reykjavík þar sem fjöldinn í flokknum lét til sín taka. En núverandi formaður er mætur og vandaður maður. Ég óska honum alls hins besta í sinni formennsku og vona að hann nái góðum árangri fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“

Telur þú að það verði skipt um formann í flokknum á landsfundi flokksins í febrúar nk. eða að það verði krafa um að skipt verði um formann?

„Ég tel afar ólíklegt að skipt verði um formann á næsta landsfundi en get vel ímyndað mér að um það verði töluvert rætt í aðdraganda fundarins,“ segir Kjartan.

Kaflinn hér að ofan birtist í veglegu áramótatímariti Viðskiptablaðsins. Í ítarlegu viðtali fjallar Kjartan m.a. um störf sín hjá Sjálfstæðisflokknum (þar sem hann starfaði í tæp 30 ár), styrkjamálið svokallaða, setu sína í bankaráði Landsbankans, stöðu stjórnmálanna og Sjálfstæðisflokksins í dag auk þess sem hann tjáir sig um alvarleg veikindi sín og margt fleira.