Kjartan Ari Jónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Ljósleiðaradeildar Gagnaveitu Reykjavíkur (GR). Kjartan, sem er 37 ára, hefur starfað hjá GR frá árinu 2005. Kjartan er með M.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Háskólanum í Álaborg.

Mikil uppbygging stendur yfir hjá GR um þessar mundir. Kjartan þekkir vel til þeirra verkefna en hann var áður uppbyggingarstjóri Ljósleiðarans, háhraða gagnaflutningsnetsins sem GR byggir og rekur.

Gagnaveita Reykjavíkur vinnur nú að ljósleiðaravæðingu í Garðabæ, Kópavogi og Hafnarfirði. Öll heimili í Reykjavík urðu tengd Ljósleiðaranum 2015. Fyrirséð er að fjöldi tengdra heimila nái 77 þúsundum fyrir árslok.