Héraðsdómarinn Kjartan Bjarni Björgvinsson hefur verið skipaður yfir rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Alþingis.

Rannsókninni er ætlað að ljúka fyrir þann 31. desember 2016, sem gefur rannsóknarmönnum ríflega sjö mánuði til athafna. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun fara yfir fyrirliggjandi gögn samhliða rannsókninni og mun að lokum leggja mat á hvort hún geri tillögu um frekari rannsókn á einkavæðingu bankans.