Það þarf vart að rifja upp að Kjartan Gunnarsson, fv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, kemur úr hinum svokallaða Eimreiðarhópi, sem á sínum tíma var hópur frjálshyggjumanna sem seint á áttunda áratugnum gaf út tímaritið Eimreiðina en hópurinn hefur að miklu leyti haldið vinskap og tengingu síðan þá.

Í Eimreiðarhópnum voru fyrir utan Kjartan þeir Davíð Oddsson, Jón Steinar Gunnlaugsson, Hannes H. Gissurarson, Baldur Guðlaugsson, Geir H. Haarde, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Brynjólfur Bjarnason og fleiri aðilar sem áttu eftir að láta að sér kveða í þjóðfélaginu.

Fjallað er um þetta og margt fleira í ítarlegu viðtali við Kjartan í veglegu áramótatímariti Viðskiptablaðsins sem kemur út í fyrramálið. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu tímaritsins en verður þess í stað birtur hér í heild sinni.

Blaðamaður vekur máls á því í samtali við Kjartan að ósjaldan þegar Davíð Oddsson stóð í hörðum átökum í stjórnmálunum nýttu andstæðingar gjarnan tækifærið til að koma höggum á þennan hóp í heild sinni eða í það minnsta þá sem mest voru áberandi í hópnum - en á móti bauð hópurinn að vissu leyti líka upp á að með því að stíga í framlínuna í hinum ýmsu málum og má þá helst nefna þá Hannes og Jón Steinar.

„Ég held að þetta sé rétt metið hjá þér," segir Kjartan aðspurður um þetta og Eimreiðarhópinn.

„Þessir aðilar sem þú nefnir og reyndar margir aðrir tilheyrðu hópi sem hafði mikinn áhuga á því að láta að sér kveða. Ekki til að ná ákveðnum frama í flokknum, ég held að það hafi verið fæstum ofarlega í huga þó svo að úr þessum hópi hafi komið þrír formenn flokksins í röð. Það var fyrst og fremst málefnabaráttan sem knúði okkur áfram. Okkur fannst að Sjálfstæðisflokkurinn hefði að nokkru leyti fjarlægst upphaflegan málefnagrundvöll sinn og við vildum gera okkar til að koma honum aftur á réttan stað. Ég held að það hafi tekist bærilega og það var þess vegna ekkert óeðlilegt að þeir sem að helst áttu þar hlut að máli og voru hvað mest áberandi væru allir hafðir undir þegar reynt var að koma höggi á forystumenn flokksins, hvort sem það voru Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson eða Geir H. Haarde. En allir þessir menn og þeir sem í kringum þá voru stóðu af sér höggin og gáfu hvergi eftir."

Það hlýtur samt að hafa verið erfitt á köflum að standa í þessum átökum, skýtur blaðamaður inn í.

„Nei, það var ekkert sérstaklega erfitt. Þegar menn hafa trú á því sem þeir eru að gera og eru sannfærðir um að málstaðurinn er heiðarlegur og drengilegur og unnið er öllum til hagsældar - þá er ekkert sérstaklega erfitt að vera þátttakandi í slíkum átökum," segir Kjartan.

„Sumir eru nú þannig að þeir sækja í bardagann og eru helst þar sem hann er þéttastur. Þannig var t.d. Davíð Oddsson sem stjórnmálamaður, hann var alltaf þar í baráttunni þar sem eldurinn var heitastur og stóð sig vel í því enda vígfimur baráttumaður. Aðrir kusu að taka þátt í átökunum með öðrum hætti en allt voru þetta menn sem voru tilbúnir til þess að leggja mikið af mörkum fyrir hugmyndir sínar og hugsjónir og eru ennþá."

Aðspurður nánar um Eimreiðarhópinn segir Kjartan að nafnið hafi í raun fest við hópinn vegna tímaritsins sem hann gaf út án þess þó að þeir hafi notað nafnið á hópinn til að byrja með. Síðar fóru þeir þó sjálfir að tala um Eimreiðarhópinn en Kjartan segir að í raun hafi þessi félagsskapur ekki verið meira en það, félagsskapur manna með sömu áhugamál og sömu hugmyndafræði.

Hvernig er samskiptum þínum háttað við meðlimi Eimreiðarhópsins í dag, s.s. Davíðs Oddssonar og Þorsteins Pálssonar?

„Þau eru ágæt og eðlileg. En alkunna er að Þorsteinn Pálsson er hlynntur inngöngu Íslands í Evrópusambandið en t.d. bæði Davíð Oddsson og Geir H. Haarde eru andvígir henni. Þetta er auðvitað alvarlegur málefnalegur ágreiningur."

S em fyrr segir er rætt við Kjartan í ítarlegu viðtali í Áramót, áramótatímariti Viðskiptablaðsins sem kemur út í fyrramálið. Þar fjallar Kjartan m.a. um störf sín hjá Sjálfstæðisflokknum (þar sem hann starfaði í tæp 30 ár), styrkjamálið svokallaða, setu sína í bankaráði Landsbankans, stöðu stjórnmálanna og Sjálfstæðisflokksins í dag auk þess sem hann tjáir sig um alvarleg veikindi sín og margt fleira.