Kjartan Gunnarsson hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins eftir 26 ára starf hjá flokknum. Kjartan tilkynnti þetta á fundi miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var í gær. Þá var ákveðið að ráða Andra Óttarsson, héraðsdómslögmann, í starf framkvæmdastjóra flokksins og mun hann taka formlega við störfum á næstu vikum.

Andri Óttarsson er 31 árs gamall. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi ári síðar. Andri hefur starfað hjá Lögmönnum við Austurvöll frá útskrift og verið meðeigandi í lögmannsstofunni frá árinu 2004. Andri hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur til að mynda setið í stjórn Heimdallar, í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna, auk þess sem hann hefur komið að kosningastjórn víða um land. Þá situr Andri í útvarpsráði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.