Landsbanki Íslands var gjaldfær í upphafi dags þann 6. október 2008. Bankinn átti nægt fé í íslenskum krónum og beiðni um gjaldeyrisaðstoð var til afgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands.

Þetta segir Kjartan Gunnarsson, fyrrv. bankaráðsmaður í Landsbankanum, í yfirlýsingu en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir skömmu hefur slitastjórn Landsbankans höfðað mál gegn Kjartani og þremur öðrum bankaráðsmönnum.

Málshöfðunin gegn Kjartani byggir á því að honum hefði sem bankaráðsmanni átt að vera ljóst í upphafi dags þann 6. október 2008 að bankinn væri ógjaldfær. Þá hafi honum einnig borið að gera ráðstafanir til að tryggja að ekki færu greiðslur út úr bankanum þennan dag. Fjárhæð kröfunnar, tæplega 17,2 milljarðar króna, eru byggð á fjárhæð nánar tiltekinna greiðslna sem fóru út úr bankanum þennan dag.

Kjartan segir í yfirlýsingu sinni að forsendur til að loka bankanum í upphafi þessa dags hafi alls ekki verið fyrir hendi og slík aðgerð hefði skaðað bankann sjálfan og sett af stað keðjuverkun með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

„Þegar það lá fyrir að umbeðin aðstoð fengist ekki hjá Seðlabanka Íslands var umsvifalaust gripið til viðeigandi ráðstafana á grundvelli [neyðarlaganna] sem samþykkt voru á Alþingi að kvöldi 6. október 2008,“ segir Kjartan í yfirlýsingu sinni.

Þá segir Kjartan að þær greiðslur sem málið varðar hafi aldrei komið til umfjöllunar hjá bankaráði enda ekki þess eðlis að þær ættu erindi þangað.

„Eftir því sem ég kemst næst var í öllum tilvikum um skuldbindingar að ræða sem bankanum bar að standa við samkvæm eldri samningum,“ segir Kjartan.

„Mér er það því með öllu óskiljanlegt af hverju einmitt þessar greiðslur eru grundvöllur kröfunnar á hendur mér. Málatilbúnaður slitastjórnarinnar og skilanefndar byggir á því að þessar greiðslur hafi verið til þess fallnar að rýra verðmæti eigna bankans og mismuna kröfuhöfum hans og hafi af þeirri ástæðu verið ólögmætar. Sé það raunin var það hins vegar á ábyrgð slitastjórnar bankans sem forsvarsmenn þrotabúsins að rifta þessum ráðstöfunum. Það var hins vegar ekki gert nema í einu tilviki og þeirri riftunarkröfu var ekki fylgt eftir.“

Kjartan segir að það sé mat sitt og lögmanna sinna að þessi málshöfðun standist ekki skoðun.  Hann hafi frá upphafi lagt sig fram um að veita bæði skilanefndinni og slitastjórninni allar nauðsynlegar upplýsingar og gert allt sem í sínu valdi stóð til að aðstoða þessa aðila.

„Að þeir skuli hafa kosið að leggja í þessa vegferð eru mér mikil vonbrigði. Ég kvíði hins vegar ekki niðurstöðu dómstóla í málinu og mun nú hefjast handa við vörn mína á þeim vettvangi,“ segir Kjartan að lokum.

Kjartan Gunnarsson.
Kjartan Gunnarsson.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)