Kjartan Gunnarsson fyrrverandi varaformaður bankaráðs Landsbanka Íslands sagði í vitnaleiðslum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að hann hefði aldrei orðið var við afskipti Björgólfs Thors Björgólfssonar að rekstri bankans á árunum 2003-2008. Mbl.is greinir frá þessu.

Vitnaleiðslurnar eru hluti af máli Vilhjálms Bjarnasonar gegn Björgólfi Thor. Kröfur Vilhjálms eru að fá gögn í hendur um það hvort Björgólfur hafi talist tengdur aðili að Landsbankanum, og væri mögulega skaðabótaábyrgð gagnvart Vilhjálmi og öðrum hluthöfum í bankanum vegna falls hans.

Árið 2003 keyptu Björgúlfur Thor, faðir hans Björgólfur Guðmundsson og viðskiptafélagi þeirra Magnús Þorsteinsson ráðandi hlut í Landsbankanum, í gegnum félög sín.

Hvorki Vilhjálmur Bjarnason né Björgólfur Thor voru viðstaddir vitnaleiðslurnar í morgun.