Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri innflutningsfyrirtækisins Bananar ehf., hefur ákveðið að láta af störfum. „Kjartan, sem fagnaði 70 ára stórafmæli sínu í mars síðastliðnum, hefur beðist lausnar úr starfi eftir farsælan feril sem framkvæmdastjóri Banana frá árinu 1995,“ segir í tilkynningu Haga, móðurfélags Banana.

Kjartan mun starfa áfram sem framkvæmdastjóri þar til ráðið hefur verið í hans stað. Unnið er að ráðningu og verður starfið auglýst á næstu dögum. Gert er ráð fyrir að ráðningaferlinu ljúki á haustmánuðum.

Áður en Kjartan hóf störf hjá Bönunum var hann framkvæmdastjóri hjá Ásgeiri Sigurðssyni hf. árin 1983-1995 og þar áður skrifstofustjóri hjá Gunnari Eggertssyni hf. árin 1977-1983.

Bananar ehf. er stærsta innflutnings- og dreifingarfyrirtæki landsins í ávöxtum og grænmeti og eitt stærsta innflutningsfyrirtæki landsins.