Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar á komandi vori.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kjartani.

„Ég leita eftir stuðningi í 2. sæti framboðslistans þar sem ég tel að reynsla mín og kraftar muni nýtast Reykvíkingum best verði ég í forystusveit,“ segir Kjartan í tilkynningunni.

Kjartan segir að við blasi vandasöm verkefni á erfiðum tímum, þar sem Reykjavíkurborg þurfi að sýna frumkvæði, aðhaldssemi og ábyrga stjórnsýslu í þágu borgaranna.

„Þar þurfa að haldast í hendur varðstaða um velferð þeirra, sem síst mega við áföllum, endurreisn atvinnulífsins og viðgangur þess eftirsóknarverða umhverfis, sem Reykjavík er fyrir fagurt mannlíf og athafnaþrá einstaklinganna. Þannig byggjum við betri borg og betra land,“ segir Kjartan.

„Þrátt fyrir margvíslega erfiðleika hefur okkur sjálfstæðismönnum í borgarstjórn auðnast á skömmum tíma að snúa vörn í sókn. Frá þeirri stefnu má ekki hvika og leggja verður allt kapp á að talsmenn sundurlyndis og skattpíningar, veruleikaflótta og skyndilausna grafi ekki um sig við stjórn borgarinnar líkt og gerst hefur á vettvangi landsmálanna. Til þess að koma í veg fyrir það þarf Sjálfstæðisflokkurinn að tefla fram sigurstranglegum framboðslista, þar sem saman fara myndugleiki fyrir hönd borgaranna og auðmýkt gagnvart þeim, frumkvæði og reynsla, dirfska og aðgætni, ráðdeild og festa.“