Kjartan Ólafsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Glitnir Securities í Osló, hefur tekið að sér að stýra alþjóðlegu sjávarútvegsteymi Glitnis við hlið Kristjáns Þ. Davíðssonar framkvæmdastjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni.

Alþjóðlega sjávarútvegsteymið leggur áherslu á að skapa ný viðskiptatækifæri bæði á þeim mörkuðum sem Glitnir hefur þegar náð fótfestu á og einnig á nýjum mörkuðum.

„Við höfum mjög stór viðskiptatækifæri víða um heim, þar á meðal í Asíu. Við munum leggja höfuð áherslu á Kína, Japan, Indland, Evrópu og Suður og Norður Ameríku, þar sem tækifærin eru mörg, auk þess sem Norðurlöndin verða áfram mikilvægur markaður fyrir okkur. Þessir möguleikar eru í samræmi við lykil áherslur bankans og gera okkur  kleift að auka þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki víðsvegar í heiminum.

Við gerum ráð fyrir að sjávarútvegsteymið vinni náið með útibúum á hverju svæði og skerpi þannig fókusinn enn frekar. Á síðustu tíu árum höfum við eignast hóp lykil viðskiptavina sem við munum halda áfram að veita mjög góða þjónustu.  Við bjóðum fjölbreyttar viðskiptalausnir og framúrskarandi net sérfræðinga á sviði sjávarútvegs og fjármála, sem ég hlakka til að vinna náið með,” segir Kjartan Ólafsson í tilkynningunni.

Kjartan Ólafsson hóf störf hjá Glitni árið 1999 og var áður yfirmaður  sjávarútvegs á markaðsvæði Glitnis á Norðurlöndum en flutti til Álasunds eftir yfirtöku Glitnis á KredittBanken árið 2005, en þaðan hefur hann leitt norska sjávarútvegsteymið.  Síðustu tvö ár hefur Kjartan starfað í Glitnir Secuirites í Osló.  Kjartan er með  mastersgráðu í sjávarútvegsfræði.