Lögmaðurinn Kjartan Ragnars hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands. Hann tekur við stöðunni af Kristjáni Inga Mikaelssyni.

Kjartan starfar sem lögmaður á Cicero lögmannsstofu og situr í stjórn Myntkaupa ehf. en hann er einn af hluthöfum fyrirtækisins. Áður starfaði Kjartan á lögmannsstofunni Rétti – Aðalsteinsson & Partners. Kjartan hefur jafnframt setið í varastjórn Rafmyntaráðs og starfað sem gjaldkeri stjórnar.

Kristján hefur hafið störf hjá sprotafyrirtækinu Fractal5 með þeim Guðmundi Hafsteinssyni, Björgvini Guðmundssyni og Söru Björk Másdóttur.

Rafmyntaráð var stofnað árið 2015 eru vettvangur fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem starfa innan rafmynta- og bálkakeðjugeirans. Undanfarin ár hafa samtökin staðið fyrir reglulegri fræðslu og fjölmörgum viðburðum um rafmyntir og bálkakeðjur. Samtökin munu áfram leggja ríka áherslu á viðburðahald og fræðslustarfsemi eftir því sem aðstæður leyfa.

Þá hefur Rafmyntaráð flutt starfsemina sína Fjártækniklasann sem er til húsa í Grósku, nýsköpunarhúsi í Vatnsmýrinni.