Frestur Reykjaneshafnar til að ná samningum við kröfuhafa rennur út í dag en alvarleg staða hefur verið í fjármálum hafnarinnar og Reykjanesbæjar undanfarið. Um miðjan október leit út fyrir að greiðslufall yrði á skuldum hafnarinnar og að skipuð yrði fjárhagsstjórn yfir Reykjanesbæ. Á gjalddaga var hins vegar samið um að veita greiðslufrest og kyrrstöðutímabil til dagsins í dag.

Aðspurður hvort að Reykjaneshöfn hefði náð samkomulagi við kröfuhafa segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar: „Ég er ekki með stöðuna akkurat núna ég get ekki staðfest að svo sé, en við vorum bjartsýn um að þetta myndi hafast fljótlega eftir hádegi í dag.“

Viðræður kröfuhafa eru við Reykjaneshöfn og segist Kjartan því ekki vera beinn þátttakandi í viðræðunum en hafnarstjóri og ráðgjafar hans leiða viðræðurnar fyrir hönd Reykjaneshafnar.

Kjartan segist gera ráð fyrir því að samningar muni klárast í dag. Hann getur ekki staðfest hvort um sé að ræða einhverja eftirgjöf af skuldum eða um efni væntanlegs samkomulags. „Við erum enn í viðræðum við kröfuhafa og það er ekki komin niðurstaða í þær. Þetta getur fallið á hvorn veginn sem er ennþá. Málið er í raun ennþá í sömu stöðu og það er búið að vera í allt þetta ár,“ segir Kjartan.