Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og einn af frambjóðendum í leiðtogakjör flokksins sem nú stendur yfir vill að komið verð á fót hverfislögreglustöð í Breiðholti á ný.

Slík stöð var starfrækt í hverfinu með góðum árangri um tuttugu ára skeið að sögn Kjartans en hún var lögð niður á árinu 2009 í tengslum við sparnaðaraðgerðir og skipulagsbreytingar. Flutti hann á síðasta fundi borgarráðs tillögu Sjálfstæðisflokksins um málið.

„Mikil ánægja var með starfsemi hverfislögreglustöðvarinnar á meðan hún var starfrækt," segir Kjartan um Breiðholtslögregluna.

„Þeir lögregluþjónar, sem þar störfuðu, mynduðu jákvæð tengsl í hverfinu og eignuðust vináttu margra Breiðhyltinga, ekki síst af yngri kynslóðinni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru margfalt fleiri afbrot í hverfinu upplýst eftir stofnun stöðvarinnar á sínum tíma, samanborið við það sem áður var."

Tillaga Sjálfstæðisflokksins í borgarráði:

„Borgarráð samþykkir að taka upp viðræður við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytið um starfrækslu hverfislögreglustöðvar í Breiðholti í því skyni að styrkja löggæslu í hverfinu.

Um yrði að ræða samstarfsverkefni ríkis og borgar og m.a. skoðað hvort borgin gæti séð stöðinni fyrir húsnæði eins og gert var þegar hverfislögreglustöð var áður starfrækt í Breiðholti með góðum árangri."