Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur til að hlutur Orkuveitunnar í Gagnaveitu Reykjavíkur verði seldur ef viðundandi tilboð fæst. Kjartan leggur til að stjórn Orkuveitunnar samþykki að gert verði verðmat á Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og síðan verði hlutur OR í fyrirtækinu seldur ef viðunandi tilboð fæst.

Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að stuðla að því að OR fái sem mest fyrir hlut sinn í slíku söluferli, t.d. með beinni sölu eða hugsanlegri sameiningu við önnur fyrirtæki.

Einnig leggur hann til að skoða megi hvort rétt sé að selja umræddan hlut í áföngum. Forstjóra sé falið að vinna að málinu og verðmat verði kynnt fyrir stjórn áður en sölumeðferð hefst. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Kjartani.