Kjarvalshúsið svokallaða, að Sæbraut 1 á Seltjarnarnesi, er til sölu. Saga hússins er nokkuð rík. Það var byggt árið 1969, teiknað af Þorvaldi S. Þorvaldssyni, og hugsað sem gjöf íslensku þjóðarinnar til Jóhannesar S. Kjarval listmálara fyrir ævistarf hans.

Húsið skipti síðast um hendur fyrir rúmum þremur árum síðan en þá eignaðist William Oliver Luckett , bandarískur frumkvöðull og listsafnari, húsið. Það hefur nú verið sett á sölu. Óskað er eftir tilboðum í það.

Um er að ræða einbýlishús sem er tæplega 443 fermetrar að flatarmáli. Innan veggja þess má finna fimm svefnherbergi, tvær stofur og þrjú baðherbergi. Önnur stofan er litlir 110 fermetrar að stærð og lofthæðin fimm metrar. Fasteignamat þess er tæpar 179 milljónir króna. Húsið stendur á 880 fermetra eignarlóð og fylgir því 28 fermetra bílskúr. Engar áhvílandi skuldi eru á því.

Hægt er að skoða myndir af eigninni og nálgast frekari upplýsingar á fasteignavefjum Morgunblaðsins og Vísis .