Flestir eru sammála um að hið alþjóðlega fjármálakerfi hafi verið of áhættusækið undanfarin ár og vanrækt varnirnar. Með Basel III á að bæta úr því, einkum með hertum ákvæðum um eiginfjárhlutfall, sem þykja bærileg. En áhættan getur hæglega flust annað, þar sem regluverkssólin aldrei skín.

2 ár eru nú liðin frá falli Lehman banka. Það var því ekki seinna vænna á sunnudag í síðustu viku að alþjóðlegir regluverðir bankakerfis heimsbyggðarinnar kynntu hinar nýju viðmiðanir um eiginfé og lausafé banka, sem nefndar eru Basel III. Með þeim er vonast til að hægt sé að skella kistuloki Lehmans aftur fyrir fullt og fast.

Reglurnar eru kenndar við svissnesku borgina Basel, þar sem Alþjóðagreiðslubankinn hefur höfuðstöðvar sínar, en hann er oft nefndur seðlabanki seðlabankanna. Reglurnar voru þó ekki smíðaðar upp á eindæmi hans, heldur var víðtækt samráð haft við helstu seðlabanka heims, ekki þó hinn íslenska!

Hinar nýju reglur einkennast af skýrari skilgreiningum á eiginfé banka, en kröfur um það voru þrefaldaðar. Markmiðið er að bankar verði betur búnir til þess að mæta einstökum áföllum og langvinnum álagstímabilum. Sem í ljósi hremminga undanfarinna ára hlýtur að teljast jákvæð þróun.

Útþynntar reglur

Ekki eru þó allir malandi af ánægju. Upphaflegar tillögur voru verulega þynntar út eftir samráð við bankastofnanir, sem sáu á þeim ýmsa annmarka. Svipaða sögu má segja af tilraunum stjórnmálamanna í ýmsum löndum til þess að lögbinda hugmyndir sínar um siðbót á fjármálamarkaði.

Sumir hafa einnig látið í ljós áhyggjur af því að þessar meintu umbætur kunni – líkt og áður hefur gerst – að verða til þess að hin forboðna áhætta muni ekki hverfa, heldur leita annað, til vogunarsjóða, fjárfestingafyrirtækja, verðbréfamiðlara, jafnvel orkufyrirtækja, en þau sæta mun minna regluverki og eftirliti og eru alveg laus við kvaðir um eiginfjárhlutfall líkt og bankar mega sæta.

Um þetta er þó aðeins rætt í hálfum hljóðum, menn vilja síður tala Basel III niður svo skömmu eftir fæðingu. En áhættan verður til staðar, því fjármagn leitar í þolanlega áhættu þar sem arðsemin er meiri.

-Nánar í Viðskiptablaðinu.