Í sérblaði Viðskiptablaðsins um Fundi og ráðstefnur sem kom út síðasta fimmtudag er fjallað um nokkrar árshátíðir íslenskra fyrirtækja. Þó að margar þeirra séu flottar og íburðarmiklar eiga þær ekkert í móður allra árshátíða. Það er árshátíð Baugs sem var haldin árið 2007 og spannaði í raun þrjá daga.

Um 200 starfsmönnum og öðrum gestum var flogið í einkaþotum til Mónakó til að taka þátt í herlegheitunum. Gríðarlegur metnaður hafði verið lagður í að skipuleggja árshátíðina og þar var meðal annars boðið upp á heimsfræga fyrirlesara, dansatriði, grínista, söngvara, hljóðfæraleikara, skemmtikrafta, flugeldasýningu og kampavín, að ógleymdu árshátíðarmyndbandinu þar sem sjá mátti ýmsa starfsmenn Baugs í leiknum atriðum með leikurunum úr bresku gamanþáttunum Little Britain.

Rúsínan í pylsuendanum var þó eflaust óvænt atriði bandarísku söngkonunnar Tinu Turner fyrir árshátíðargesti. Þessi veisla verður sennilega seint toppuð.

Myndband:


Fjallað er um fleiri árshátíðir í Fundum og ráðstefnum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .