Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum netverja í dag ljósmynd af kjól sem fólk er ekki sammála um að sé annað hvort hvítur og gylltur eða svartur og blár. Myndin hefur farið eins og eldur um sinu í gegnum samfélagsmiðla en hann er framleiddur af breska fataframleiðandanum Roman Originals.

Í samtali við Fortune segir talsmaður fataframleiðandans að sölur fyrirtækisins hefðu aukist um 347% frá því að ljósmynd af kjólnum fór fyrst að flakka í gegnum netið í gærkvöldi. Kjóllinn, sem kostar 50 pund eða í kringum 10.000 krónur, er nú fáanlegur í gegnum vefsíðu Roman Originals og fæst í þremur litasamsetningum, en engin þeirra er hvít og gyllt.