*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 8. maí 2017 14:56

Kjör 20 þúsund starfsmanna undir

Um 40 kjarasamningar eru lausir eða losna á þessu ári. Þar undir eru kjör um 20 þúsund starfsmanna undir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Um 40 kjarasamningar eru lausir eða losna á þessu ári. Þar undir eru kjör um 20 þúsund starfsmanna undir, en þar á meðal eru samningar BHM og grunnskólakennara, auk flugvirkja og flugmanna. Þetta minnir Ríkisútvarpið á frétt sinni. 

Kjarasamningur Læknafélags Íslands rann út um mánaðamótin. Síðast var samið hjá læknum eftir langvinnt verkfall. Samningaviðræður eru hafnar. Einnig runnu samningar bæði Rafiðnaðarsambandsins og Verkalýðsfélags Akraness við Elkem út í lok janúar, þar eru samningaviðræður einnig hafnar. Enn fremur runnu samningar vegna starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum út síðastliðinn febrúar, sem og samningar starfsmanna SFR hjá Isavia. 

Hins vegar renna samningar sem varða flesta einstaklinga út síðla sumars og í haust. Stærsti samningurinn af þeim er samningur 18 stéttarfélaga innan BHM við íslenska ríkið. Þeir samningar ná til um 11 þúsund manna. Einnig rennur kjarasamningur framhaldsskólakennara við ríkið út í lok október, en sá samningur nær til um 1.500 manns. 

Skammtímasamningur sem grunnskólakennarar gerðu við sveitarfélögin fyrr á þessu ári renna út í nóvember og nær hann til um 4.500 manns. Samkvæmt lauslegri talningu fréttastofu Ríkisútvarpsins eru þetta um 20 þúsund einstaklingar.