Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins gagnrýnir skattahækkanir í nýju fjárlagafrumvarp, nú þegar skýr merki um það i að hagkerfið sé að breyta um takt og því mikilvægt að stuðla að stöðugleika. Eftir mikinn efnahagsuppgang og hagvöxt síðustu ára sé nú farið að hægja á hagkerfinu að því er segir á vef samtakanna .

„Hagvöxtur verður minni á næsta ári og fjárlögin endurspegla þann breytta veruleika. Ég sakna þess því að sjá ekki áherslur um að koma til móts við atvinnulífið, m.a. með lækkun á tryggingagjaldi,“ segir hann og bendir á að nú séu kjöraðstæður til lækkunar gjaldsins.

„Núna er rétti tíminn til að spila út skattalækkunum til atvinnulífsins sem sannarlega hefur þurft að þola sterkt raungengi svo dæmi sé nefnt.“ Halldór segir það jákvætt að verið sé að greiða niður skuldir ríkisins sem hafi minnkað um tæpan helming frá því þær voru hvað mestar í kringum áramótin 2011 til 2012.

Hins vegar sé stóra málið í vetur kjaraviðræður ríkisins við stéttarfélög opinberra starfsmanna. „Ég tel mikilvægt að ríkið sýni ábyrgð í fjármálastjórn og hjálpi okkur að varðveita kaupmáttaraukningu síðustu ára,“ segir Halldór en rætt var við hann í Morgunblaðinu og RÚV.