Samtök iðnaðarins segja í frétt á heimasíðu samtakanna að sá viðsnúningur sem sé að verða í efnahagsmálum þjóðarbúsins skapi kjöraðstæður fyrir hið opinbera til að setja meiri kraft í innviðauppbyggingu. Vísað er til nýrrar þjóðhagsspár Seðlabankans, sem birt var í morgun, en í henni hefur bankinn fært hagvaxtarspá sína niður um þriðjung í 1,8% fyrir yfirstandandi ár.

Jafnframt er vísað til nefndarálits meirihlutans í umhverfis- og samgöngunefndar, sem var til umræðu á Alþingi í gær, en þar segir að merki um samdrátt sé strax farið að gæta hjá verkfræðistofum og verktökum. Brýnt sé að framkvæmdahraði verði meiri en áætlað sé í samgönguáætlun og fjárfestingarþörfin sé í heild milli 350-400 milljarðar króna.

Haft er eftir Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra Samtakanna, að mikil uppsöfnuð þörf sé fyrir fjárfestingu í innviðum eftir fjársvelti síðustu tíu ára. Hann telji þá helmings aukningu í fjárfestingum hins opinbera fyrir 128 milljarða króna í ár heldur varfærna og ætla megi að fjárfestingin á árunum 2020-2022 verði jafnvel umfram þá áætlun sem kynnt var á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins á dögunum.