Að mati Íslandsbanka eru nú kjöraðstæður til að sækja fé á hlutafjármarkað. Mikið fé er í umferð og fjármögnun hlutabréfa gengur greiðlega fyrir sig. Spurn er eftir nýjum kostum á markaðinum en nýtt félag hefur ekki bæst í hópinn í Kauphöllinni síðan Medcare Flaga var skráð síðasta haust. Þau félög sem hafa sagst vera að íhuga skráningu, svo sem Atlanta, Tölvumyndir og Norðurljós, virðast hins vegar vera stutt komin af stað í því ferli. Af einkavæðingu Landssímans hefur ekkert frést síðustu mánuði.

Reyna mun á eftirspurn markaðarins í hlutafjárútboði KB banka í byrjun ágúst sem verður stærsta hlutafjárútboð hérlendis. Fjárhæð útboðsins er 40 milljarðar króna og hafa hluthafar bankans forkaupsrétt. Í ljósi gengis bréfanna munu hluthafar nýta rétt sinn og spurningin því frekar hvort margir þeirra kjósi að selja bréfin í kjölfar útboðs. Við eigum síður von á því og teljum að meirihluti hluthafa, þar með talið stærstu hluthafar, muni halda bréfunum. Hin eiginlega spurning sem snýr að markaðinum er því hvernig hluthafar fjármagna kaupin. Eins má búast við stóru hlutafjárútboði hjá Bakkavör gangi yfirtaka á Geest eftir.