„Alls staðar í nágrannalöndum okkar er verið að keyra vexti niður í þeirri von að hægt sé að milda neikvæð  áhrif efnahagslægðarinnar. Í Bretlandi hafa vextir ekki verið lægri í meira en 300 ár og jafnvel er búist við frekari lækkun vaxta. Þar er niðursveiflan samt mun vægari en hér.   Við erum hins vegar með 18% stýrivexti, hátt   atvinnuleysisstig, helfrosin fasteignamarkað og fárveika krónu. Núna eru kjöraðstæður til að lækka vexti mjög myndarlega,“ segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Bjarni bendir á að rök Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um nauðsyn þess að halda vöxtum háum þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífinu standist ekki. „Alþingi samþykkti fyrir jól lög sem gefa Seðlabankanum viðtækar heimildir til að takmarka útstreymi gjaldeyris. Þessar reglur miða að því að varðveita þann gjaldeyri sem kemur til landsins og koma í veg fyrir fjármagnsflótta og frekara fall krónunnar. Það má eiginlega segja að Seðlabankinn sé búinn að setja á krónuna bæði belti og axlarbönd í viðleitni sinni til að halda henni stöðugri. Ég tel að gjaldeyrishöftin og skilaskylda á gjaldeyri ættu að dugi til. Aðstæður nú eru einfaldlega svo erfiðar fyrir atvinnulíf og almenning í landinu að við verðum að sjá vexti fara niður. Þessar aðstæður réttlæta að  Seðlabankinn losi  aðeins um beltið og treysti á að axlarböndin dugi til að hemja krónuna“, segir Bjarni að lokum.