Hæstiréttur hefur fallist á beiðni Kjörís ehf. um áfrýjun í deilu félagsins við Emmessís ehf. um notkun á vörumerkinu TOPPÍS. Að mati réttarins gæti úrlausn á álitaefni málsins haft fordæmisgildi á sviði vörumerkja- og einkaleyfisréttar.

Í nóvember 2016 hóf Emmessís sölu á nýjum rjómaís undir heitinu TOPPÍS en umrætt heiti var skráð vörumerki í eign Kjörís. Emmessís taldi á móti að Kjörís hefði ekki framleitt vörur undir því heiti undanfarin fimm ár og taldi sér því heimilt að nota merkið áfram.

Í kjölfar þessa fór Kjörís fram á það að lögbann yrði lagt á frekari framleiðslu, markaðssetningu og sölu á TOPPÍS og féllst sýslumaður á það. Staðfestingarmál var höfðað í kjölfarið og átti það í upphafi að sæta flýtimeðferð. Við fyrirtöku málsins upplýsti dómstjóri að fallist hefði verið á flýtimeðferð fyrir mistök og var hún síðar afturkölluð.

Í héraði var kröfum Kjörís hafnað með þeim rökum að TOPPÍS uppfyllti ekki kröfur vörumerkjalaga um skráningarhæfi. Bent var á að samkvæmt íslenskum orðabókum væri „ístoppur“ viðurkennt orð yfir „keilulaga sælgætisís“.

„Þótt orðið „ístoppur“ sé augljóslega ekki sama orð og „toppís“ verður ekki dregin fjöður yfir það að afar náin samstaða sé með þessum orðum enda skírskota þau, eins og stefnandi hefur notað orðið „toppís“, bæði til keilulaga sælgætisíss og eini munurinn á þeim er í reynd að orðstofninn „topp“ sem er fyrri liður í öðru orðinu er síðari liður í hinu,“ sagði í héraðsdómi. Þá var ekki talið að kjörís hefði skapað sér vörumerkjarétt á heitinu með framleiðslu á „lúxus toppís“.

Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms á þeim grundvelli á Kjörís hefði ekki notað vörumerkið TOPPÍS líkt og áskilið er í lögum um vörumerki. Því vildi Kjörís ekki una og sótti um áfrýjunarleyfi af þeim sökum. Bæði kynni dómur Hæstaréttar að hafa almennt gildi á sviði vörumerkja- og einkaleyfaréttar og á sviði réttarfars.

Hæstiréttur féllst á beiðnina að hluta til. Krafa Kjörís um staðfestingu lögbannsins kemur ekki til álita fyrir dómstólnum þar sem það er úr gildi fallið. Hins vegar munu aðrar dómkröfur ísframleiðandans úr Hveragerði, um að Emmessís sé óheimilt að nota vörumerkið TOPPÍS, að fyrir réttinum.