Kjörsókn í alþingiskosningunum á laugardag var 81,4% og hefur hún ekki verið minni frá því Ísland varð lýðveldi. Fram kemur í morgunblaðinu í dag að mesta kjörsóknin var í Norðvesturkjördæmi eða 83,6%. Minnst var hún í Reykjavíkurkjördæmi norður eða 78,9%

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla á Akureyri, segir í samtali við Morgunblaðið að kjörsókn hefði getað orðið minni ef framboðin hefðu verið færri. Hann segir kosningaþátttöku hér hafa verið góða í samanburði við það sem gerist í nágrannalöndunum.

„Samanborið við aðra þá er ekki hægt að segja að lýðræðinu sé hætt, en þetta er ákveðið merki um að kosningaþátttaka sé að síga niður á við,“ segir hann.