Svissneskir kjósendur munu brátt kjósa um orlofsgreiðslur handa feðrum eftir að tillaga fékk nægan fjölda undirskrifta. Skylda fyrir feður að taka fjögurra vikna feðraorlof gæti orðið að lögum í Sviss en tillaga þess efnis hefur nú fengið nægan fjölda undirskrifta til að um hana verður að kjósa í landinu.

Samkvæmt svissneskum lögum verður að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um allar lagatillögur almennings sem fá að lágmarki 100 þúsund undirskriftir. Íbúar í landinu eru um 8,4 milljónir, svo hlutfall undirskrifta þarf að vera rétt um 1,20% svo íbúar fái að kjósa um lagabreytinguna. Ef hún hlýtur tilskilinn meirihluta verður hún að lögum.

Fá 20 daga fæðingarorlof

Samkvæmt tillögunni munu nýbakaðir feður fá 20 daga feðraorlof þar sem þeir fá greitt um 80% af meðallaunum sínum. Munu þeir þurfa að taka fyrstu fimm dagana innan 10 daga frá fæðingu barnsins, en hina 15 dagana má dreifa á fyrstu sex mánuði á ævi barnsins að því er segir frá í frétt CNN .

Kostnaðurinn við feðraorlofið er áætlaður um 380 milljónir svissneskra franka á ári, eða sem nemur 42 milljörðum íslenskra króna. Svissneskar mæður fá í dag 14 vikna fæðingarorlof þar sem þær fá greitt 80% af meðaltekjum sínum.

Ekki skylda að taka fæðingarorlof

Svissneska þingið hafnaði svipaðri reglu í apríl 2016, en landið er eina Evrópulandið sem skilyrðir ekki fæðingarorlof fyrir foreldra. Meðalfæðingarorlof feðra í ESB löndum er þó ekki nema 12,5 dagar, ef tekið er tillit til bæði þeirra sem greiðslur fást fyrir og þær sem ekki er greitt fyrir.

Í dag geta svissneskir feður fengið einn til tvo daga frí eftir að barn fæðist, en um er ræða sérstaka frídaga vegna persónulegra mála, allt frá flutningum til heimsóknar til tannlæknis eða fæðingar barns.