Þriðjudaginn 8. september verður kröfuhafafundur vegna slitameðferðar Glitnis hf. haldinn á Hilton Reykjavík Nordica. Á fundinum verður stöðugleikaframlag borið saman við stöðugleikaskatt og meginefni frumvarps Glitnis að nauðasamningi kynnt, að því er fram kemur í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Auk þess verður kosið um ályktanir vegna stöðugleikaframlags, lausnar undan ábyrgð og skaðleysis.

„Þessi ályktun [um stöðugleikaframlag] felst í því að bera undir kröfuhafana hvort þeir vilji ljúka skiptum með greiðslu stöðugleikaframlags,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. „Það verður kosið um það á þessum fundi hvort þeir samþykki stöðugleikaframlagið,“ segir hún.

Tillögur kröfuhafa Glitnis að stöðugleikaskilyrðum voru birtar strax eftir kynningu stjórnvalda á haftaafnámsáætlun í júní síðastliðnum. Meðal annars var lagt til að slitabúið greiddi stöðugleikaframlag til íslenska ríkisins. Á meðal þess sem gert hefur í málinu síðan er að Glitnir og Íslandsbanki hafa gert með sér samkomulag um breytingar á fjárhagsskipan Íslandsbanka sem auðveldar sölu bankans til erlendra aðila, eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðasta mánuði.

Viðskiptablaðið greindi síðan frá því á dögunum að sala Íslandsbanka til erlendra aðila væri mun hagstæðari fyrir Glitni en sala á bankanum til innlendra aðila, samkvæmt tillögum kröfuhafa um stöðugleikaskilyrði.