*

föstudagur, 25. september 2020
Innlent 25. apríl 2019 10:02

Kjósi um afskráningu Heimavalla á ný

Forstjóri Kaupallarinnar telur að nýjan hluthafafund þurfi til að afskrá Heimavelli með samþykki um 90% hluthafa.

Jóhann Óli Eiðsson
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Kauphöllin hafnaði í liðinni viku beiðni Heimavalla hf. um töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum á aðalmarkaði. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, telur að niðurstaða fundarins hafi ekki verið nægilega afgerandi og að nýjan hluthafafund þurfi til. 

Páll segir að möguleiki sé fyrir Heimavelli leggja málið upp með öðrum hætti og í raun afskaplega einfalt að hanna það þannig að niðurstaða Kauphallarinnar yrði önnur að því gefnu að einhugur verði um afskráningu meðal hluthafa. „Það er skilyrði fyrir slíku að það sé nægur stuðningur við afskráningu. Að okkar mati þyrfti að boða annan hluthafafund og kanna afstöðu upp á nýtt. Að okkar mati var ekki nægilegt fylgi með afskráningu en þar erum við að leggja sams konar mat á hlutina og kauphallir í nágrannaríkjum okkar,“ segir Páll.

Hann bætir því við að það sé háð mati í hvert og eitt sinn hve hátt hlutfall atkvæða þarf til samþykkis. „Við horfum til hlutfalls í kringum 90% sem væri hægt að miða við en þó með fyrirvörum um að hvert og eitt tilfelli er mismunandi,“ segir Páll en 81,3% atkvæða greiddu atkvæði með afskráningu á aðalfundi félagsins í mars. „Þar erum við að miða við framkvæmd annarra kauphalla og bestu framkvæmd sem við viljum ekki víkja frá í þessu tilfelli fremur en öðrum.“

Nánar verður fjallað um átök milli Heimavalla og Kauphallarinnar í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði.