Ágætlega gengur á birgðir af hvítu kjöti í kjölfar þess að endi var bundinn á verkfall dýralækna fyrr í sumar. Í verkfallinu söfnuðust upp miklar birgðir af kjúklinga- og svínakjöti vegna þess að ekki mátti slátra dýrunum. Síðar var leyft að slátra, en þó ekki til sölu. Framkvæmdastjórar kjúklingabúa Matfugls og Ísfugls segjast báðir hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna takmarkaðrar sölu, en hins vegar séu hlutirnir komnir nokkurn veginn í samt horf. Hvorugur framleiðandinn segist sitja á of miklum birgðum.

Hvorugt fyrirtækjanna segist hafa lækkað verð til að reyna að koma birgðunum hraðar út. Geir Gunnar Geirsson, framkvæmdastjóri Stjörnugríss, segir fyrirtækið sitja uppi með einhverjar birgðir af svínakjöti. Það gæti tekið nokkra mánuði að ná birgðum niður í eðlilegt horf, en líkt og kjúklingabændurnir metur hann fjárhagstjón verkfallsins umtalsvert. „Við erum enn að vinna úr því tjóni sem verkfallið orsakaði. Það versta er liðið hjá, en það neyðarástand sem skapaðist á búunum þegar okkur var meinað að slátra dýrunum,“ segir Geir og bendir á að þrátt fyrir þörf svínabúanna til að hækka verð til mótvægis við tjónið sé slíkt ekki mögulegt í augnablikinu.