Nauti sem slátrað var hjá Norðlenska á dögunum myndi sennilegast duga í 3000 hamborgara. Þetta kemur fram á vefsíðu fyrirtækisins en þar segir að þyngdarmet hafi verið slegið þegar holdanaut frá Breiðabóli á Svalbarðsströnd kom til slátrunar á Akureyri. Reyndist dýrið 553,1 kg. Þyngsti grípur sem slátrað hafði verið fram að þessu hjá fyrirtækinu var 526 kílógramma boli frá Hleiðargarði í Eyjafjarðarsveit á síðasta ári.

Gylfi Halldórsson bóndi á Breiðabóli er ekki óvanur því að koma með þunga gripi til slátrunar. Hann lagði inn sex naut nú í haust og var meðalþungi þeirra 391 kílógrömm, en sá sem næstur kom var 468,7 kílógrömm.

Gylfi segist eiginlega ekki geta svarað því hvers vegna gripirnir frá honum eru jafn þungir og raun ber vitni. „Það hjálpar reyndar örugglega til að ég rækta korn og gef þeim. Uppistaðan í fæðunni er hey en ég gef þeim korn einu sinni á dag þar til þremur mánuðum fyrir slátrun, en tvisvar á dag eftir það,“ segir Gylfi á vef Norðlenska. Hann segir kálfum yfirleitt slátrað 27-28 mánaða gömlum en „metbolinn“, sem hafi verið mjög stór allt frá fæðingu, var orðinn 29 mánaða og tveggja vikna.