*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 20. mars 2019 13:26

Kjötiðnaðurinn fái ekki undanþágu

FA bendir á mótsagnir Framsóknarmanna sem vilja að kjöt fái sömu undanþágu frá samkeppnislögum og mjólk.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Félag atvinnurekenda leggst í umsögn til Alþingis gegn samþykkt frumvarps um að bætt verði inn í búvörulögin ákvæði um að afurðastöðvar í kjötiðnaði verði undanþegnar tilteknum ákvæðum samkeppnislaga.

Frumvarpið er lagt fram af tveimur þingmönnum Framsóknarflokksins, þeim Höllu Signýju Kristjánsdóttur og Líneik Önnu Sævarsdóttir, sem segja það verða gott fyrir afurðastöðvar og bændur sem og það hefði í för með sér hagstæðara verð fyrir neytendur.

Segir félagið hróplegar mótsagnir vera í málflutningi flutningsmanna frumvarpsins og reynsluna af sambærilegri undanþágu fyrir mjólkuriðnaðinn vera vonda að því er fram kemur á vef FA.

Bendir félagið á að frá því að undanþágan var samþykkt fyrir mjólkuriðnaðinn árið 2004, hafi verðþróun mjólkur- og kjötvara verið mismunandi þannig að verð mjólkurvara hafi hækkað um 2 til 17% umfram verð kjötvara. Segir félagið engan vafa leika á að meginskýringin á þessum mun vera meiri samkeppni á markaði fyrir kjötvörur en mjólkurvörur.

Jafnframt segir félagið það ekki vera röksemd að í erlendum samanburði séu innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar, því hún eigi við um það bil öll fyrirtæki á Íslandi og nota mætti sömu rök til að undanþiggja nánast allt atvinnulífið samkeppnislögum.

Bendir FA þvert á móti á að fyrirtæki á íslenskum mjólkurmarkaði fái ekki nauðsynlegt aðhald frá samkeppni sem leiðir því til hærra mjólkurverðs og minni nýsköpunar. Sem dæmi um ábatann af aukinni samkeppni sé 60% meiri framleiðsla innlendra grænmetisbænda, 10 árum eftir að leyfður var tollfrjáls innflutningur á agúrkum, tómötum og paprikum.

Loks vísar félagið á svar frá öðrum flutningsmanninum, Líneik Önnu fyrir hönd þingflokks Framsóknarmanna á vef Neytendasamtakanna frá 19. febrúar síðastliðins og segist félagið taka heilshugar undir þau orð. Væntir félagið jafnframt að flutningsmenn dragi frumvarpið til baka ef þeir eru sammála þessum orðum sínum frá því fyrir mánuði:

„Aðhald neytenda við aðstæður fullkominnar samkeppni er öflugasta tækið. Fákeppnisaðstæður ger[a] neytendum erfiðara um vik að veita nauðsynlegt aðhald. Eftir því sem samkeppni á matvörumarkaði er meiri, bæði í vinnslu, dreifingu og smásölu, því lægra verði má búast við til neytenda.“