Fyrirtækið Kjötkompaní, sem rekur sérverslun í Hafnarfirði með kjöt og meðlæti ásamt því að bjóða upp á veisluþjónustu, hagnaðist um 8,9 milljónir árið 2016. Um er að ræða 25% hagnaðaraukningu frá árinu áður þegar fyrirtækið skilaði rúmum 7 milljóna hagnaði. Á sama tíma jukust eignir félagsins úr 84 milljónum í rúmar 140 milljónir. Þar af jukust fastafjármunir úr 38,8 milljónum króna í 54,4 milljónir.

Eigið féð félagsins fór úr því að vera neikvætt um 6,5 milljónir í að vera jákvætt um 2,3 milljónir. Handbært fé í lok árs jókst einnig úr 806 þúsund krónum árið 2015 í 2,1 milljón króna árið 2016. Af ársreikningi að dæma minnkuðu langtímaskuldbindingar úr rúmum 17 milljónum í tæpar 14 milljónir en á sama tíma jukust skammtímaskuldir félagsins úr tæpri 91 milljón króna í 138 milljónir.

Þar munar mestu um að yfirdráttur á tékkareikningi hækkaði úr 1,8 milljón króna í 31,2 milljónir. Jón Örn Stefánsson er eini skráði hluthafinn og leggur stjórn félagsins til að ekki verði greiddur út arður vegna ársins 2016.