JBS, stærsta kjötvinnslufyrirtæki heims, hefur greitt netglæpamönnum um 1,3 milljarða króna í lausnargjald til að binda endi á umfangsmikla netárás. Fyrirtækið segir að greiðslan, sem fór fram með rafmyntinni Bitcoin, hafi verið nauðsynleg til að verja viðskiptavini sína. BBC segir frá.

Tölvukerfi JBS datt niður eftir árásina í síðustu viku og stöðvaði starfsemi fyrirtækisins í Ástralíu, Kanada og Bandaríkjunum. Í slíkum árásum er fyrirtækjum hótað miklum truflunum á rekstri og að gögnum sé lekið eða eytt.

Sjá einnig: Netárás á lagnarisa víti til varnaðar

Í byrjun maímánaðar lenti olíuleiðslufyrirtækið Colonial Pipeline í sambærilegum aðstæðum og greiddi um 4,4 milljónir dala í lausnargjald. Bandarískum stjórnvöldum tókst að endurheimta um helming fjárhæðarinnar.