*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 26. janúar 2018 16:39

Kjötsúpa verði skyndibiti ferðamanna

Íslenskt lambakjöt verður í öndvegi hjá N1 um allt land og verður boðið upp ýmsa skyndirétti úr lambakjöti.

Ritstjórn
Guðný Rósa Þovarðardóttir framkvæmdastjóri N1 og Svavar halldórsson framkvæmdastjóri Icelandic Lamb undirrituðu samninginn á Nestisstöð N1 í Borgarnesi.
Aðsend mynd

N1 og markaðsstofan Icelandic Lamb undirrituðu í dag samstarfssamning sem innsiglar víðtækt samstarf, vöruþróun og sameiginlegar markaðsaðgerðir til að auka sölu lambakjöts á Nestisstöðvum N1 um allt land. Undirbúningur hefur staðið frá því haustið 2017 segir í fréttatilkynningu. 

Samningurinn var undirritaður í þjónustumiðstöð N1 við Brúartröð í Borgarnesi. Það voru þau Guðný Rósa Þorvarðardóttir framkvæmdastjóri hjá N1 og Svavar Halldórsson framkvæmdastjóri Icelandic Lamb sem undirrituðu samninginn á Nestisstöð N1 í Borgarnesi.

Boðið verður upp á Lamba-hamborgara og lambaskanka

Í upphafi er sérstök áhersla á að kynna íslenska kjötsúpu sem hollan og aðgengilegan íslenskan skyndibita fyrir ferðamenn. Bæði verður hægt að borða hana á staðnum eða taka með.  

Á næstu vikum og mánuðum bætast við fleiri skyndiréttir úr lambakjöti, m.a. steikarsamloka, lambasnitsel, lamb bearnaise og lamba-hamborgari. Þetta er afrakstur vöruþróunar undanfarinna mánaða þar sem lambakjötið er í aðalhlutverki.

Með skírskotun til íslenskra hefða verður einnig boðið upp á hægeldaða lambaskanka með kartöflumús, sósu, rauðkáli og grænum baunum á sunnudögum.

Vilja koma ferðamönnum á bragðið

Fjölgun erlendra ferðamanna síðustu ár hefur sett svip sinn á íslenskan skyndibitamarkað. Með samstarfinu er ætlunin að bjóða ferðamönnunum að kynnast íslenska lambakjötinu eins og við Íslendingar þekkjum það best.  

Um leið á að festa kjötsúpuna í sessi sem ekta íslenskan skyndibita og ómissandi hluta af því að upplifa íslenska matargerð og hefðir. Með því að setja íslenskt lambakjöt í öndvegi sem skyndibita við þjóðveginn vill N1 lágmarka umhverfisfótspor, uppfylla óskir viðskiptavina um hágæða skyndibita, kynna íslenska matarmenningu og taka afstöðu með íslenskum bændum. 

Um N1 og Nesti 

N1 rekur vel staðsettar þjónustustöðvar og verslanir um land allt undir merkjum N1 og Nestis. Undanfarin misseri hefur aukin áhersla verið lögð á ferskan og hollan skyndibita úr úrvals hráefni. Íslenskt lambakjöt fellur einkar vel að kröfum N1 vegna sérstöðu sinnar, gæða og hreinleika. 

N1 og Icelandic Lamb munu sameiginlega vinna að því að markaðssetja íslenska lambið sem hreina náttúruafurð og tilvalin skyndibita fyrir fólk á ferðinni.

Um Icelandic Lamb 

Markaðsstofan Icelandic Lamb er í eigu Markaðsráðs kindakjöts sem er samstarfsvettvangur Landssamtaka sauðfjárbænda, Landssamtaka sláturleyfishafa og Bændasamtaka íslands. Markaðsstofan rekur öfluga verðlaunaherferð gagnvart erlendum ferðamönnum undir sérstöku merki og er í samvinnu við um 150 aðila í veitingarekstri, smásölu, framleiðslu og hönnun sem setja lambakjöt og aðrar íslenskar sauðfjárafurðir í öndvegi.