Tólf manns hafa látið lífið í Danmörku vegna matareitrunar í rúllupylsu og að minnsta kosti tuttugu í viðbót hafa veikst. Búið er að loka fyrirtækinu Jørn A. Rullepølser í Hedehusene á Norður-Sjálandi sem framleiddi rúllupylsurnar í kjölfar þess. Þessu greinir RÚV frá.

Ástæða matareitrunarinnar er listeríubaktería sem var í kjötinu. Auk þess að loka fyrirtækinu hafa um þrjátíu framleiðsluvörur fyrirtækisins verið innkallaðar. Fólkið sem lést af völdum matareitrunarinnar var allt veikt fyrir áður en það smitaðist.

Grunur var um listeríusmit fyrst í september en það var síðan ekki fyrr en í júní í sumar að umfang smitsins var staðfest. Listería er baktería sem finnst í jarðvegi, vatni og þörmum sumra dýra, einkenni smits eru slappleiki, uppköst, niðurgangur og hiti. Að sögn danskra heilbrigðisyfirvalda hafa að meðltali 50 til 60 manns smitast af bakteríunni á hverju ári síðan 2006. Mest var það árið 2009 þegar hundrað manns veiktust.

Árið 2010 létu sjö manns lífið vegna bakteríunnar í Austurríki eftir að hafa snætt mengaðan ost í kjölfar þess voru stjórnendur framleiðslufyrirtækisins sóttir til saka.