*

miðvikudagur, 28. október 2020
Fólk 20. september 2020 19:32

Kláfurinn bjargaði vináttunni

Steinunn Pálmadóttir, nýr lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, hefur meira gaman af fjallgöngum en sumar vinkonur hennar.

Höskuldur Marselíusarson
Lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, Steinunn Pálmadóttir, hefur gaman af fjallgöngum og fór því í skiptinám í nágrenni Alpanna þar sem hún dró óvana vinkonu sína í göngu upp í 1.300 metra hæð í 30 stiga hita.
Aðsend mynd

„Mér þykir mjög spennandi að vinna fyrir Samtök iðnaðarins því þetta snýst mikið um að vera í samskiptum við stjórnvöld, tala fyrir mikilvægum málum og þannig ýta á eftir því sem tryggir gott starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja," segir Steinunn Pálmadóttir, nýr lögfræðingur hjá SI.

„Foreldrar mínir voru í atvinnurekstri þegar ég var að alast upp og hefur það eflaust aukið áhuga minn á atvinnulífinu. Það er oft talað um að við aldamótakynslóðin viljum hafa áhrif svo hérna sé ég tækifæri til að gera það á stærri vettvangi og koma einhverju góðu áleiðis. Ég er einnig mikil félagsvera og þetta starf felur í sér að vera í samskiptum við mjög marga."

Steinunn tók fljótt á sig ábyrgð í vinnu, en strax 16 ára gömul var hún orðin vaktstjóri á hóteli í sumarvinnu. „Ég hafði verið að vinna sem þjónn á Hótel Örk með skóla og bauðst svo vaktstjórastaða um sumarið.

Sumarið eftir það var svo fyrrum vinnufélagi minn að byrja að reka veitingastað og spurði hvort ég vildi verða rekstrarstjóri, þannig að ég var 17 ára gömul að ráða inn fólk, gera vaktaplön og panta inn aðföng. Sú reynsla er mér dýrmæt því hún gaf mér innsýn inn í rekstur," segir Steinunn sem þó hélt ekki áfram í þeim bransa.

 „Ég hef alltaf verið staðföst í því að ég ætlaði í lögfræði og fór strax í 10. bekk í starfsnám inni á lögmannsstofu. Það er samt enginn lögfræðingur í fjölskyldunni, svo ætli ég hafi ekki bara horft of mikið á lögfræðiþætti. Meðfram öllu laganáminu var ég svo hóptímakennari í Sporthúsinu, kenndi BodyPump þrisvar í viku meðfram skóla, en í dag reyni ég að troða einhverri hreyfingu inn hér og þar, eins og að hjóla í vinnuna.

Ég elska að hjóla á undan umferðinni og undirbúa mig andlega á leiðinni undir verkefni dagsins og fara í göngutúra með litlu strákana mína tvo, sem eru tveggja og fimm ára. Þess utan eru mín aðaláhugamál fjallgöngur og halda matarboð eða skipuleggja vinkonuhitting, það gefur mér mikið."

Steinunn er í sambúð með Brynjólfi Hjörleifssyni, sérfræðingi hjá Tryggingastofnun Ríkisins. „Ég hef reynt að láta fjallgöngurnar vera fjölskyldusport hjá okkur þó að maðurinn minn vilji frekar að við séum að veiða. Ég valdi meira að segja skiptinám í Salzburg því ég vildi komast í fjallgöngur og á skíði í Ölpunum.

Einu sinni dró ég vinkonu mína sem var alls ekki vön göngu upp á fjall sem var óvart 1.300 metra hátt, og hún ætlaði að drepa mig fyrir að toga sig af stað í 30 stiga hita. Það bjargaði vináttunni að við uppgötvuðum svo að það var kláfur sem hægt var að taka niður."