Klak –Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins hefur gert samning við SIVA – Iðnþróunarfélag Noregs um uppbyggingu á nýsköpun á hér á landi. Samkomulagið felur m.a. í sér samstarf um þróun á vísindagörðum, frumkvöðlasetrum og fjárfestingartækifærum á Íslandi.

Fram kemur í tilkynningu frá Klaki að SIVA – Þróunarfélag Noregs var stofnað árið 1968 af norska ríkinu með það að leiðarljósi að byggja upp klasa og vísindagarða með fjárfestingum í innviðum, tengslanetum og nýsköpunarsetrum.

Haft er eftir Eyþóri Ívari Jónssyni, framkvæmdastjóra Klaks, að SIVA hafi byggt upp níu vísindagarða í Noregi og muni þessi samningur glæða lífi í áætlanir um uppbyggingu vísindagarða hér á landi.

Samningurinn er gerður í kjölfar þess að Torkel Ystgaard, aðstoðarframkvæmdastjóri SIVA, hélt erindi á fjárfestingarráðstefnunni Seed Forum Iceland fjárfestingarráðstefnunni í vor en hann nýtti tímann til að skoða aðstæður hér á landi. Samkomulagið var undirritað í október og í lok nóvember fór sendinefnd frá Íslandi og skoðaði nýsköpunarsetur og vísindagarða í Noregi. SIVA mun tilnefna leiðandi aðila í norska nýsköpunarumhverfinu til þess að verða Íslendingum innan handar við mótun á hugmyndum um nýsköpunarsetur og vísindagarða og leiðir til fjármögnunar.

Orðrétt segir Eyþór um málið í tilkynningu:

„Við þurfum að nýta okkur þau tengsl sem við höfum til þess að byggja upp nýsköpun á Íslandi. Norðmenn hafa gert mikið af áhugaverðum hlutum í nýsköpun sem við getum lært af og norskir fjárfestar hafa sýnt Íslandi aukinn áhuga síðustu misserin. Við höfum verið í góðu samstarfi við Norðmenn í gegnum Sprotaþing Íslands sem rekur Seed Forum Iceland þar sem Seed Forum International var stofnað og er rekið af Norðmönnum. Það vakti athygli Norðmanna hvað Klak – Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins er búin að byggja upp áhugaverða hluti í nýsköpunarumhverfinu, eins og t.d. Viðskiptasmiðjuna – hraðbraut nýrra fyrirtækja, Seed Forum Iceland, StartupReykjavik, Nordic Innovation, Nýsköpunarhádegi Klaks og fleiri verkefni. Áhugi Norðmanna snýst ekki hvað síst um hugmyndir um nýsköpun í hreinni orku.“