Eignarhaldsfélagið Klakki sem kynnti að það hygðist setja fjármögnunarfélagið Lykil, sem Klakki á að fullu, í söluferli fellur ekki undir ákvæði um hámarksþak á bónusa vegna þess að það fellur ekki undir skilgreiningu sem eignarhaldsfélag á fjármálasviði af Fjármálaeftirlitinu. Klakki hyggst greiða allt að 550 milljónir króna í bónus til sex stjórnarmanna og þriggja starfsmanna félagsins ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt um sölu Lykils. Um er að ræða bónuspott þar sem starfsmenn Klakka munu eiga tilkall til 45% af pottinum en stjórnarmenn 55%.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu hefur Klakki öllu heldur verið skilgreint sem Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi hjá Fjármálaeftirlitinu. Skilgreiningar á eignarhaldsfélögum líkt og Klakka eru þó uppfærðar árlega og endurskoðaðar ef þörf þykir til. Lykill er hins vegar fjármálafyrirtæki sem starfar eftir lögum um fjármálafyrirtæki og gæti því ekki stillt upp samskonar kaupaukakerfi og Klakki.

Það getur skipt sköpum hvernig fyrirtækin eru skilgreind og umtalsverðir fjárhagslegir hagsmunir undir. Ef Klakki félli undir fyrri skilgreininguna og þar af leiðandi undir reglur um kaupauka, eða bónusa, væri fé­ laginu óheimilt að greiða stjórnarmönnum bónusa og starfsmönnum væri aðeins heimilt að þiggja bónusa sem nemur 25% af heildarárslaunum sínum að bónusunum undanskildum.

Samkvæmt skilgreiningu á eignarhaldsfélagi á fjármálasviði í lögum um fjármálafyrirtæki, en þau falla eins og áður sagði undir reglur um kaupauka, er það „fjármálastofnun sem ekki er blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi þar sem dótturfélögin eru annaðhvort eingöngu eða aðallega fjármálafyrirtæki eða fjármálastofnanir og a.m.k. eitt dótturfélagið er fjármálafyrirtæki“. Á heimasíðu Klakka segir að helstu eignir félagsins séu Lykill fjármögnun hf. og aðrar smærri eignir. Þrátt fyrir það hefur Klakki verið flokkaður sem blandað eignarhaldsfélag á fjármálasviði af Fjármálaeftirlitinu og kaupaukakerfi Klakka því ekki bundið reglunum. Eignasafn Klakka var þó lengi vel stærra og breiðara en félagið hefur á síðastliðnum árum selt hluti sína í Bakkavör, VÍS, Símanum og fleiri félögum.

Þá eru allir starfsmenn Klakka, þau Magnús Scheving Thorsteinsson forstjóri, Brynja Dögg Steinsen rekstrarstjóri og Jón Örn Guðmundsson fjármálastjóri stjórnarmenn í Lykli. Þar sem stjórnarmenn eru alla jafna ekki taldir starfsmenn fyrirtækis falla þau heldur ekki undir þau ákvæði í reglugerð­inni um kaupauka að þriðja að­ila sé óheimilt að greiða starfsmönnum fjármálafyrirtækja bónusa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .